MIÐLAR

Vöxtur miðlanna

Árið 2021 var svo sannarlega viðburðaríkt í fjölmiðlum okkar. 

Fréttir

Í byrjun árs fórum við í þá afdrifaríku framkvæmd að loka fréttaglugganum fyrir öðrum en áskrifendum. Margir utan fyrirtækisins höfðu efasemdir um þessa aðgerð sem reyndist svo einstaklega góð í alla staði. Í stað þess að grípa til niðurskurðar sem allt benti til á síðasta ári sóttum við fram í þeirri bjargföstu trú að fólk vildi sjá kvöldfréttir Stöðvar 2. Niðurstaðan var okkur í hag. Áskriftum fjölgaði jafnt og þétt og ekki hafa verið fleiri áskrifendur að Stöð 2 í yfir 10 ár.   Þetta leiddi einnig til þess að við gátum eflt fréttirnar enn frekar og ætlum ekki að láta staðar numið enda höfum við yfir að ráða einstaklega góðu fréttafólki sem sýnir mikla ástríðu í störfum sínum. 

Frá því í haust hafa orðið talsverðar breytingar á ritstjórn fréttastofu. Fréttatími í sjónvarpi hefur verið lengdur og nýir sjónvarpsþættir á vegum fréttastofu litið dagsins ljós. Pallborðið á Vísi og Stöð 2 Vísi hefur komið sterkt inn í þjóðmálaumræðuna að ógleymdum Fréttaauka sem fjallaði m.a. ítarlega um börn sem bjuggu við skelfilegar aðstæður á Hjalteyri. 

Fréttastofan og Kompás fengu þrjár tilnefningar til blaðamannaverðlaunanna og hlutu verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins með því að afhjúpa umfangsmikil og afdrifarík mistök sem gerð voru við greiningar á leghálssýnum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.  

Fréttastofa bauð upp á þá nýbreytni í ár að gera tuttugu annála, í stað eins, sem dreifðust á virku dagana í desember. Í hverjum þætti, sem var 5-6 mínútna langur, var tekið eitt stórt fréttamál fyrir. Annálarnir voru sýndir á Vísi, á Stöð 2 fyrir fréttir og á Stöð 2 Vísi og fengu verðskuldaða athygli.

Vísir og Stöð 2 Vísir 

Vísir er stærsti miðill landsins. Lestur og áhorf hefur aldrei mælst meira en á árinu. Sterk staða Vísis sést glögglega á yfirliti úr fjölmiðlamælingu Gallup en þar kemur fram að rúm 70% Íslendinga á aldrinum 18-80 ára lesa miðilinn á hverjum einasta degi. Vísir hefur fjölgað efnisþáttum og aukið framleiðslu á íslenskum sjónvarpsþáttum. Í byrjun árs 2022 fara í loftið átta nýir þættir á Vísi sem verða einnig sýndir á Stöð 2+. Það má segja að Vísir sé miðpunktur miðlanna okkar. Allt okkar efni fer með einum eða öðrum hætti inn á Vísi hvort sem um er að ræða fréttir, íþróttaefni, menningar- eða lífstílsefni, efni úr útvarps-, hlaðvarps- og sjónvarpsþáttum. 

Ekki má gleyma nýjustu sjónvarpsstöðinni í flóru miðla okkar en Stöð 2 Vísir fór formlega í loftið kosningadaginn 25. september 2021. Stöð 2 Vísir sýnir meðal annars beint úr stúdíói útvarpsþættina Bítið, Bakaríið og Sprengisand á morgnana.  

Umræðuþátturinn Pallborðið er vikulega í beinni útsendingu en einnig er á stöðinni fjöldi beinna útsendinga frá ýmsum viðburðum úr þjóðlífinu, bæði fréttatengt efni og menningarlegs eðlis. Á kvöldin er svo á dagskrá alls kyns skemmtiefni og íslensk tónlist. 

Áhorfið eykst með hverjum deginum sem líður. Að jafnaði horfa á milli þrjú og fimm þúsund manns á morgunþættina Bítið, Bakaríið og Sprengisand. Á kvöldin horfa á milli fimm og tíu þúsund manns á stöðina. 

Í vor stefnum við á að opna aðra línulega sjónvarpsstöð tengda Vísi en hún kallast Stöð 2 Vísir Sport og býður upp á íslenskt íþróttaefni sem fellur ekki undir áskriftarhlutann. 

Stöð 2 og Stöð 2+ 

Við höfum margfaldað framleiðslu á íslenskum sjónvarpsþáttum af öllu tagi og sýnum alla þætti samtímis á Stöð 2 og Stöð 2+. Stöð 2 fékk 15 tilnefningar til Edduverðlaunanna sem er til marks um aukin gæði í framleiðslu á sjónvarpsefnis okkar. Sjónvarpsþátturinn Blindur bakstur var valinn sjónvarpsþáttur ársins á verðlaunahátíð barnanna, Sögur. 

Þessar breytingar hafa leitt m.a. til mikillar fjölgunar áskrifenda að Stöð 2 og Stöð 2+ sem setti nýtt áskriftarmet í hverjum mánuði allt árið. 

Alls munu 15 íslenskir sjónvarpsþættir hefja göngu sína á fyrstu þremur mánuðum nýs árs og margir eru á teikniborðinu. Við höfum fengið til liðs við okkur frábært hæfileikafólk sem mun í bland við það reynslumikla blómstra hjá okkur. 

Við erum í mikilli tækniþróun á myndlyklinum, Stöðvar 2 appinu og vefsjónvarpinu. Fljótlega verða kynntar umfangsmiklar breytingar sem munu hafa mikil áhrif á upplifun viðskiptavina okkar. Við stefnum á að vera fyrst og fremst í Stöðvar 2 appinu þótt myndlykilinn muni áfram gegna stóru hlutverki. 

Stöð 2 Sport 

Íþróttadeildin hefur sömuleiðis aukið framleiðslu á íslensku íþróttaefni og gæðin verða sífellt betri. Einn af hápunktum íþróttadeildarinnar var Evrópumótið í knattspyrnu sem var gríðarlega umfangsmikið. Mikið var lagt í íslenska umfjöllun um mótið, hitað upp fyrir hvern leik og allir leikir gerðir upp í myndveri með færustu knattspyrnusérfræðingum landsins. 

Nýr samningur um sýningarrétt frá efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu var gerður til næstu fimm ára. Stöð 2 Sport hefur sýnt frá íslenskri knattspyrnu frá 1997 og verður áfram heimili fótboltans. Áhorf á liðnu ári var með mesta móti enda hafa beinar útsendingar og þættir aldrei verið fleiri. 

Stöð 2 Sport sýnir einnig frá efstu deildum handbolta og körfubolta ásamt því að sinna metnaðarfullri umfjöllun um íþróttirnar. Áhugi á efninu eykst með ári hverju samhliða aukinni umfjöllun og öflugri dagskrárgerð. 

Auk beinna útsendinga og umfjöllunarþátta um íslenskar íþróttir hefur Stöð 2 Sport framleitt fleiri þætti og meira heimildaefni. Meðal þess sem var frumsýnt árið 2021 var þáttaröðin Víkingar – fullkominn endir sem fjallaði um Íslands- og bikarmeistara Víkings. Þá var viðtalsþáttaröðin Foringjarnir sýnd.  

Við erum með háleit markmið um að bæta enn frekar í enda fjölgar sífellt í hópi áskrifenda.  Nýir íslenskir íþróttaþættir eru í burðarliðnum fyrir næsta ár auk þess sem nýr sportheimur mun líta dagsins ljós á nýju ári í myndlyklum og í appinu. Við ætlum að sinna íslenskum íþróttum af kostgæfni og alúð, nú sem endranær. 

Útvarpið 

Þróunin á útvarpsmiðlum hefur verið mjög jákvæð en þeir eru í harðri samkeppni við aðrar útvarpsstöðvar í landinu. Það er staðreynd að Bylgjan er oftast vinsælasta útvarpsstöð landsins og í heild eru útvarpsmiðlar okkar þeir langstærstu. 

Við höfum verið að bæta við glæsilega flóru okkar í þáttargerð. Það má nefna að við byrjuðum síðasta vetur með Bylgjan - órafmagnað sem er tónleikaröð sem urðu sjö þættir og fékk frábær viðbrögð frá tónlistarfólki og hlustendum, einnig sýndum við þetta á Stöð 2 vísir. 

Við höfum einnig verið að gera sérþætti um allra bestu tónlistarmennina okkar. Þorgeir Ástvalds hefur verið að taka saman sögulega þætti um eldri tónlistarmenn sem hafa í áratugi fært okkur margar perlur. Þessir þættir nýtast bæði í útvarpi og hlaðvarpi sem sögulegar heimildir. 

Einnig höfum við aukið vægi íslenskrar tónlistar á Bylgjunni og má nefna að af 20 vinsælustu lögum ársins 2021 voru 14 íslensk en það hefur aldrei gerst áður. 

Útvarpið mun vaxa enn frekar á næsta ári. Við höfum gert góðar breytingar og fengið til liðs við okkur nýja þáttastjórnendur sem skila enn betri árangri og halda okkur enn ferskari og fjölbreyttari. 

Tónskáldasjóður Bylgjunnar og Stöðvar 2 úthlutaði styrkjum til 30 listamanna í ágúst. Með stuðningi við íslenskt tónlistarfólk eflum við og auðgum íslenska menningu og fjölmiðlastarfsemi. 

Hlaðvarp 

Í haust settum við í gang nýja hlaðvarpsveitu, Tal, en við munum sjá mikinn vöxt hennar á komandi mánuðum. Þar hefur útvarpsfólkið okkar nýst mjög vel og Blökastið var fyrsti þátturinn í veitunni og fór áskriftarsalan fram úr björtustu vonum.  Fjölmargir hlaðvarpsþættir komu í kjölfar þeirra og strax í janúar bætast nýir þættir í flóruna. Til að byrja með hefur aðgengi að þáttunum verið á vefsíðunni tal.visir.is en nýtt app verður gefið út á næstunni.

Innherji 

Nýr viðskiptamiðill, Innherji, hóf göngu sína í október. Hann hefur strax markað spor í umfjöllun um íslenskt viðskiptalíf. Á nýju ári verður Innherji eingöngu opinn áskrifendum og bindum við miklar vonir við góðan árangur í áskriftarsölu.   

Auglýsingadeild 

Í ágúst var ákveðið að færa auglýsingadeildina undir fjölmiðlahluta fyrirtækisins. Í kjölfarið var ráðinn nýr auglýsingastjóri með mikla reynslu úr bransanum.   

Áherslubreytingar voru gerðar á deildinni og í framhaldinu styttum við auglýsingatíma í sjónvarpi og útvarpi, hættum með auglýsingar í miðjum sjónvarpsþáttum og hækkuðum meðalverð á auglýsingum almennt. 

Þessi aðgerð er fyrst og fremst hugsuð til þess að bæta upplifun áskrifenda okkar og auka gæði auglýsingahólfa. Breytingarnar leiddu meðal annars til þess að sala á auglýsingum hefur aukist undanfarna mánuði og var yfir áætlunum á síðustu mánuðum ársins. 

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.