Árið 2021

Árið okkar!

Árið okkar er runnið upp. Hluthafar munu njóta ávaxta þolinmæðinnar, stjórnendur þrautseigjunnar og starfsfólk gleðinnar sem fylgir því að ná árangri. Því fylgir sönn ánægja að sigrast á krefjandi verkefnum í samhentum hóp. Nóg framboð hefur verið á slíkum verkefnum síðastliðin þrjú ár og nú raðast margir góðir áfangar undanfarinna ára saman í trausta og heilbrigða heild.

Mesta verðmæti hvers fyrirtækis er góður starfsandi og besta fóður hans eru tækifæri fólks til að sigrast saman á erfiðum verkefnum. Slík tækifæri gefast helst í fyrirtækjum sem vaxa hratt eða þurfa að breytast eða bregðast við breyttum aðstæðum með hraði. Við stóðum frammi fyrir því að þurfa að breytast hratt. Vinna undanfarinna þriggja ára hefur því snúist um þær nauðsynlegu breytingar. Viðskiptavinir eru nú í öndvegi sem aldrei fyrr, þjónusta, vörur og verð hefur verið endurhugsað, ferlar og kerfi tekin í gegn og félagið endurfjármagnað með sölu eigna.

Síðast en ekki síst þarf að vera gaman. Ef það er gaman þá skilar það sér svikalaust til hlustenda, áhorfenda, viðskiptavina og samstarfsfólks og allt verður auðveldara. Þess höfum við notið á liðnu ári og það er þakkarvert.

Samvinnan og starfsandinn er og verður okkar helsta vopn í því skrautlega samkeppnisumhverfi sem hér er til staðar. Því miður eru engar vísbendingar um að stjórnmálamenn snúi af þeirri braut að allir vegir liggi til ríkisins, hvað varðar ríkisrekna fjölmiðla- og afþreyingarstarfsemi. Við stjórnum því ekki en stöndum keik og sigrum þann draug með því að gera betur en þeir geta gert sem skortir tengingu við greiðendur þjónustunnar. Á sama tíma fögnum við því að á fjarskiptasviðinu er útlit fyrir að skorið verði á þau tengsl sem hafa verið milli innviða og stærsta aðilans á markaðinum.

Við höfum áður sagt að árið 2022 myndum við skína. Nú er allt útlit fyrir það að það muni ganga eftir. Við tryggjum það með því að nýta þann grunn sem við höfum byggt upp og halda vegferðinni áfram af sama krafti og á liðnu ári. Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður

Fyrir hönd stjórnar Sýnar vil ég þakka viðskiptavinum, hluthöfum og öllum starfsmönnum fyrir liðið ár. Framtíðin er ykkar.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.