STARFSEMIN

Viðskiptavinurinn vísar veginn

Miklar breytingar og aukið vöruframboð 

Á síðasta ári hófum við ferðalag sem bar yfirskriftina „Nýtt upphaf“ þar sem haft var samband við yfir 32.000 heimili. Í átakinu fórum við yfir áskriftir viðskiptavina okkar og tryggðum að þeir væru í bestu mögulegu og hagkvæmustu áskriftarleið hverju sinni.   

Á þessu ári höfum við haldið áfram vinnu á þessum sama grunni og ráðist í umtalsverða einföldun á vöruframboðinu okkar. Við höfum hætt með mikinn fjölda af eldri og óhagstæðum þjónustuleiðum og á sama tíma haldið áfram að færa viðskiptavini í rétta áskriftarleið sem byggist á notkun og fjölskyldusamsetningu.  

Við höfum lagt okkur fram við að hlusta á viðskiptavini okkar og brugðist við athugasemdum sem koma úr reglulegum þjónustukönnunum. Þá höfum við uppfært vöruframboðið okkar í takt við þær athugasemdir.  

Burt með falinn kostnað 
Frá gamalli tíð voru innheimt svokölluð speglunar- og dreifigjöld sem lögðust á viðskiptavini sem voru með dreifingu utan heimilis eða hjá öðrum dreifiveitum. Þetta gjald var aflagt á árinu og nú er enginn aukakostnaður við slíka dreifingu. 
Hægt að koma og fara innan mánaðar 
Á árinu gerðum við líka breytingar á skilmálum Stöðvar 2 sem gerir viðskiptavinum kleift að panta og segja upp þjónustu innan mánaðar án fyrirhafnar. Fram til þessa voru ákvæði í skilmálum sem gerðu slíkt flókið og torskilið fyrir notendur. 
Fjölskyldupakkinn slær í gegn 
Við erum himinlifandi yfir móttökunni sem Fjölskyldupakkinn hefur fengið til þessa. Þetta er þegar orðin ein vinsælasta og best heppnaða vörunýjung sem við höfum hleypt af stokkunum.  
Enginn óþarfi og aukið framboð 
Miklar breytingar hafa orðið á vöruframboði Stöðvar 2 á árinu. Verð á sameinaðri vöru Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ var lækkað til muna og kaupferli einfaldað. Samhliða er nú í boði val um að kaupa Stöð 2 Sport, innlent eða erlent, sérstaklega á einungis 3.990 kr. Þannig geta þeir sem hafa takmarkaðan tíma eða eingöngu áhuga á ákveðnum íþróttum valið áskrift við hæfi.   Auk þess er nú er í boði að kaupa aðgengi að NBA League Pass og NFL Game Pass öppunum hjá okkur. Stöð 2 Sport mun halda áfram að gera þessum atburðum góð skil. Viðskiptavinir geta nú fengið aðgengi að þessum öppum á bestu mögulegu kjörum og notið allra útsendinga sem í boði eru auk ítarefnis og uppgjörsþátta.  Við höfum samhliða stóreflt útsendingar frá innlendum íþróttaviðburðum og munum á þessu ári, líkt og í fyrra, senda beint út frá öllum leikjum í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu.Þá kynntum við til leiks nýjan sportheim í vefsjónvarpinu sem bætir notendaupplifun og aðgengi að þessum atburðum. Þessi heimur mun vera áfram í þróun og bætingu á komandi ári. 
Stórbættur búnaður 
Á árinu kynntum við til sögunnar þráðlausan myndlykil frá Samsung sem hægt er að taka með sér og tengja þar sem er netsamband. Nú er hægt að njóta allrar okkar þjónustu óháð staðsetningu.  Við kynntum líka til leiks nýjan netbeini með margfalt sterkara sambandi sem hjálpar viðskiptavinum að njóta bestu gæða um allt heimilið.  Samhliða því aflögðum við eldri tegundir af myndlyklum og netbúnaði.  
Bætt kerfi og betri þjónusta 
Eitt umfangsmesta verkefni síðasta árs var þó sú ákvörðun að fjárfesta í bættum viðskiptakerfum með það fyrir augum að m.a. tryggja rétta og auðskiljanlega reikninga.  Viðskiptavinir okkar munu vonandi finna fyrir því í auknum mæli á árinu að upplifun og gagnsæi á þjónustu þeirra eykst. Það verður auðveldara að eiga samskipti við okkur og gera breytingar á þjónustuþáttum. Viðskiptavinurinn er sannanlega í hjarta allra okkar athafna og við hlökkum til að fá að þjónusta hann enn betur á komandi ári.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.