Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.
Gott fyrirtæki verður betra
Síðustu misseri höfum við lagt ríka áherslu á að þróa fyrirtækið úr því að vera tæknidrifið (e. engineer driven) og yfir í að vera þjónustumiðað (e. customer centric), í samræmi við þá stefnu sem mótuð var sumarið 2019. Í takt við þessar áherslur er ánægjulegt að segja frá því að ánægja viðskiptavina hefur aldrei mælst meiri eftir sameiningu félagsins árið 2017.
Mikill árangur hefur náðst við að einfalda og rétta af rekstur fyrirtækisins síðustu ár. Okkur hefur tekist að snúa við taprekstri upp á um 100 milljónir á mánuði yfir í hagnað upp á sambærilega fjárhæð. Á sama tíma hefur okkur tekist að snúa algerlega við efnahag fyrirtækisins, greiða niður skuldir upp á fjóra milljarða og mynda söluhagnað upp á sex og hálfan milljarð. Þetta tvennt náðum við að gera í miðjum heimsfaraldri þar sem reikitekjur og auglýsingatekjur hrundu og lækkun krónunnar hækkaði innkaup fyrirtækisins umtalsvert. Þar að auki höfum við endursamið við alla okkar birgja til að auka sveigjanleika í rekstrinum. Stærsti áfanginn í þeirri vegferð var þó óumdeilanlega sala óvirkra innviða úr farsímakerfinu sem gekk í gegn þann 14. desember síðastliðinn og hyggjum við á enn frekari sölu innviða á næstu misserum í takt við stefnumótun okkar.
Til þess að draga úr áhættu og auka arðbærni fyrirtækisins höfum við leitast við að breyta stórum hluta kostnaðar í breytilegan kostnað sem hreyfist í takt við tekjur. Í þessu verkefni höfum við stuðst við framlegðargreiningu sem stjórntæki niður á hverja einingu fyrirtækisins. Þetta öfluga stjórntæki styður við rekstrarákvarðanir og stöndum við ekki í rekstri eininga sem skila ekki ásættanlegri framlegð. Til viðbótar við einföldun rekstrarins og viðsnúning efnahagsreikningsins höfum við komið fram með nýjar tekjustoðir sem styrkja reksturinn enn frekar. Má þar nefna nýjan hlaðvarpsheim, væntanlegan áskriftarvef fyrir framan valið efni á Vísi og færsluhirðingu fyrir fyrirtæki. Um helmingur allra heimila og fyrirtækja landsins eru í föstu mánaðarlegu reikningssambandi við fyrirtækið í kringum fjarskipti og fjölmiðla og með þennan stóra viðskiptamannahóp sjáum við fram á að geta útvíkkað þjónustuframboð okkar enn frekar. Þar liggja áhugaverðustu tækifærin út frá markmiðum stefnumótunarinnar.
Við teljum okkur standa mjög vel varðandi langtímaþróun á fjarskiptamarkaði. Heimavinna færist sífellt meira í aukana og með því fylgir að atvinnurekendur greiða fyrir farsíma og heimatengingu starfsmanna sinna. Heildarstærð vinnumarkaðar er yfir 200.000 manns. Á sama tíma fjölgar netárásum á fyrirtæki og stofnanir gríðarlega og því ljóst að það er ekki hverjum sem er treystandi fyrir því að halda tengingu beint inní upplýsingahjarta viðkomandi rekstrar. Samstarf okkar við Vodafone Group skiptir okkur miklu máli enda hrindir fyrirtækið ótrúlegum fjölda netárasa á hverjum degi og skráir að meðaltali 40 milljarða atvika í hverjum mánuði. Við erum öryggisvottað fyrirtæki með sterka stöðu á fyrirtækjamarkaði sem á að hjálpa okkur til sóknar í fjarskiptum.
Þjónusta til viðskiptavina er að taka hröðum breytingum í takt við þróun tækninnar en hana má nýta með ýmsum hætti til að einfalda líf viðskiptavina og auka skilvirkni í rekstri. Framtíð fjarskipta snýr í minna mæli að neytandanum og alltaf í meira mæli að tækjum, þar sem mannshöndin kemur hvergi nærri en tækjatengingar af þessu tagi eru kallaðar hlutanetið (e. IoT). Við höfum algera yfirburði á Íslandi í slíkum tengingum. Í raun erum við einsdæmi í heiminum með þrisvar sinnum fleiri hlutanetskort en íbúafjölda. Við sjáum ekkert annað en áframhaldandi vöxt á þessu sviði. Við höfum farið varlega í uppbyggingu á 5G til neytenda út af seinagangi löggjafans um að klára fjarskiptalagafrumvarp sem hefur tafist í yfir tvö ár. Uppbygging á fjarskiptakerfum varðandi hlutanetið hefur aftur á móti verið mjög hröð.
Framtíð fjölmiðla er spennandi. Við höfum gert stefnumarkandi breytingar á Stöð 2 þar sem efnisveitan er sett í fyrirrúm, íslenskt efni og afhending fram hjá myndlyklum. Við teljum okkur eiga mikinn fjölda áskrifenda inni með þessari nálgun. Á sama hátt erum við að endurskoða dreifingu útvarps með nýju appi og aukum vægi hlaðvarpa en skilin á milli hljóðbóka, hlaðvarps og útvarps verða æ minni með hverju misserinu sem líður.